Skotar sem eru búsettir í Ungverjalandi eru ævareiðir út í bandarísku skyndibitakeðjuna Burger King fyrir að kalla ódýrstu máltíðina sem þeir eru með í boði „skoska matseðilinn“. Í Ungverjalandi þýðir nefnilega orðið „skot“ sá sem er nískur eða nánasarlegur.
Skotarnir eru ósáttir og hvetja aðra til að sniðganga skyndibitakeðjuna. Þeir segja að markaðssérfræðingar Burger King hefðu átt að gera betur.
Forsvarsmenn Burger King segja að þetta hafi verið hugsað sem létt grín, og ekkert alvarlegt liggi að baki þessari herferð. Ekki sé verið að brennimerkja Skota sérstaklega, aðeins sé um orðaleik að ræða.