Metáhorf var á ræðu John McCains, forsetaefni repúblikana, á flokksþingi Repúblikanaflokksins í St. Paul í gær, en alls fylgdust 38,9 milljónir sjónvarpsáhorfenda með ræðunni. Það er litlu meira en þeir sem horfðu á ræðu Baracks Obama á flokksþingi demókrata, en 38,3 milljónir horfðu á ræðu Obama.
Skv. fjölmiðlakönnun Nielsen horfðu 37,2 milljónir Bandaríkjamanna á ræðu Söruh Palin, varaforsetaefni repúblikana, í fyrradag.
John McCain lagði á það áherslu í ræðunni sinni í gær að hann væri umbótasinni og að hann væri sá sem myndi koma á raunverulegum breytingum í Bandaríkjunum.
Fagnaðarlætin voru talsvert minni hjá McCain en hjá Palin, en hún skaut föstum skotum að Obama og uppskar lófaklapp, blístur og hróp stuðningsmanna sinna.
McCain er aðeins á eftir Obama ef marka má flestar skoðanakannanir sem hafa verið gerðar á landsvísu. McCain hét því hins vegar í gær að hann muni bera sigur úr býtum, þegar Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu þann 4. nóvember nk.
„Ég starfa ekki í þágu flokks. Ég starfa ekki í þágu sérhagsmunahópa. Ég starfa ekki fyrir mig sjálfan. Ég starfa fyrir ykkur,“ sagði McCain í ræðunni í gær.