Lögregla í Svíþjóð telur, að kona, sem haldin er MS-sjúkdómi, hafi verið lokuð inni gegn vilja sínum í níu ár í litlum sumarbústað í Smálöndum í Svíþjóð. Karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um líkamsárás og ólöglega frelsisskerðingu.
Að sögn Smålands-Tidningen, sem segir frá þessu í dag, vill lögregla lítið segja um málið. Hún vill heldur ekki upplýsa um líðan konunnar að öðru leyti en því, að hún sé góð eftir atvikum.
Maðurinn, sem er á sjötugsaldri, mun verða leiddur fyrir dómara í dag. Að sögn sænskra fjölmiðla hefur fólkið búið í sumarbústaðnum frá 1999.