Sjálfstæður endurbótasinni

McCain sagði að hann væri sá frambjóðandi sem folk ætti að kjósa ef það vildi enda málþóf í Washington og ef það vildi mann sem ynni fyrir fólkið og ekki sjálfan sig.

McCain var greinilega með það í huga að demókratar hafa mikið gert út á að Obama þýði breytingu í Washington meðan McCain standi fyrir óbreytt ástand. McCain lagði á það mikla áherslu að hann væri endurbótasinni og mjög sjálfsstæður.

McCain var truflaður af mótmælanda eftir 10 mínútur en áheyrendur hrópuðu USA, USA til að þagga niður í mótmælandanum. McCain hló og bað fólk að hunsa mótmælin.

McCain var meira en fimm ár í fangelsi í Hanoi og sagði hann að hann hefði orðið ástfanginn af landi sínu á þessum tíma. Hann hafi ekki tilheyrt sjálfum sér heldur landi sínu.

Kosningabarátta McCains hefur verið löng og erfið. Viðhorf hans í innflytjandamálum og fjármögnun kosningabaráttunnar reitti marga repúblikana til reiði og stuðningur hans við það að fjölga hermönnum í Írak var í andstöðu við óskir flestra Bandaríkjamanna.

„Ég barðist fyrir réttum viðbrögðum og fleiri hermönnum í Írak þegar það var ekki vinsælt. Og þegar sumir sögðu að kosningabaráttu minni væri lokið sagði ég að ég vildi frekar tapa kosningunum en að landið tapaði stríðinu.”

Þá talaði McCain um það að hann hygðist berjast gegn spillingu og hömlulausri eyðslu. Það skipti ekki máli hvaða flokki fólk væri í, það þyrfti að berjast gegn hvoru tveggja af hörku.

Hann endurnýjaði stuðning sinn við Íraks þegar Bush ákvað að styrkja heraflann þar og ofbeldið byrjaði að minnka. Afstaða hans til nokkurra mikilvægra mála eins og innflytjendamála færðist nær afstöðu flestra repúblikana.

Ólíkt Obama sem kom með harða gagnrýni í sinni ræðu í Denver í síðustu viku, þá gagnrýndi McCain ekki mikið andstæðing sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert