Spánn: Lokað á erlent vinnuafl

Á hverju ári reyna þúsundir Afríkubúa að komast ólöglega til …
Á hverju ári reyna þúsundir Afríkubúa að komast ólöglega til Spánar í þeirri von að öðlast betra líf Reuters

Stjórnvöld á Spáni ætla að verja með kjafti og klóm þá ákvörðun að loka fyrir innflutning á útlendu vinnuafli. Að sögn Mariu Teresu Fernandez de la Vega, aðstoðarforsætisráðherra Spánar, getur ríkisstjórn landsins ekki annað þar sem um 2,5 milljón Spánverja eru án atvinnu.

Hugmyndir ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar mætt harðri andstöðu frá stjórnarandstöðunni, verkalýðsfélögum  og hagsmunasamtökum innflytjenda. 

Celestino Corbacho, ráðherra atvinnumála, tilkynnti fyrr í vikunni að stjórnvöld myndu taka af skarið hvað varðar útgáfu atvinnuleyfa til útlendinga á Spáni og að nánast engin atvinnuleyfi yrðu gefin út það sem eftir lifir árs. Eins og áður sagði er 2,5 milljón Spánverja án vinnu, 500 þúsund fleiri heldur en á sama tíma í fyrra. Skýrist aukið atvinnuleysi aðallega af samdrætti í byggingaiðnaði sem og öðrum framkvæmdum.

Ráðuneyti  Corbacho vinnur nú að gerð  frumvarps til laga sem beinist að því að fá útlendinga sem starfa á Spáni til þess að yfirgefa landið. Ef frumvarpið verður að lögum þá verður útlendingum greidd umtalsverð fjárhæð samþykki þeir að fara til síns heima með möguleika á að koma aftur til Spánar innan nokkurra ára þegar ástandið batnar á vinnumarkaði.

Þykja þessar áætlanir stjórnvalda vera mikil umskipti frá fyrri hugsjónum þar sem forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriguez Zapatero, sem hefur hingað til talið sér það til tekna að taka vel á móti innflytjendum.

Zapatero veitti um 600 þúsund óskráðum útlendingum á Spáni hæli árið 2005, ári eftir að ríkisstjórn hans komst til valda. Olli þetta reiði meðal annarra ríkja Evrópusambandsins þar sem talið var að þetta hefði þau áhrif að ólöglegir innflytjendur myndu streyma frá Spáni inn í Frakkland og önnur ríki ESB eftir að slakað var á landamæragæslu þessara ríkja.

Af 45 milljónum íbúa Spánar eru um 10% þeirra innflytjendur. Stærsti hluti þeirra kemur frá rómönsku Ameríku, Norður-Afríku og Austur-Evrópu. Skráð atvinnuleysi er nú 10,7% á Spáni samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Evrópu, Eurostat.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert