Hanna komin til Bandaríkjanna

Hitabeltislægðin Hanna gekk á land í Norður- og Suður-Karólínu í Bandaríkjunum í dag. Þúsundir hafa þurft að flýja strandsvæðin vegna óveðursins, en mikill öldugangur, hvassviðri og úrhellisrigning fylgir lægðinni.

Á sama tíma óttast menn að fellibylurinn Ike, sem er mun öflugri en Hanna, muni einnig ógna íbúum Karíbahafsins og Bandaríkjanna.

Þegar hafa tugir látið lífið af völdum Hönnu á Haítí. Bandaríkjamenn hafa gripið til neyðarráðstafana við strandlengju Norður- og Suður-Karólínu, sem er 1.600 km löng.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna, sem er staðsett í Miami, segir að óveðrið ferðist nú á 35 km hraða á klst. eftir austurströndinni. Það er jafnvel talið að Hanna muni ná alla leið til Kanada.

Ríkisstjórar N-Karólínu og Virginíu hafa lýst yfir neyðarástandi í ríkjunum. Þá hefur ríkisstjóri Suður-Karólínu kallað eftir því að fólk yfirgefi tvær sýslur.

Vindhraði Hönnu mælist nú vera um 26 metrar á sekúndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert