Ike veldur usla á Karíbahafi

Ike sést hér yfir Karíbahafi neðarlega á myndinni hægra megin.
Ike sést hér yfir Karíbahafi neðarlega á myndinni hægra megin. AP

 Fellibylurinn Ike fer nú yfir eyjarnar Turks og Caicos af fullum þunga, en þetta er í fjórða sinn í röð sem öflugur fellibylur eða hitabeltislægð fer yfir Karíbahafið á sl. þremur vikum. Gífurlegt tjón hefur orðið á eyjunum og segir forsætisráðherrann að 80% húsa á eyjunni Grand Turk séu ónýt.

AP fréttastofan hefur eftir Michael Misick, forsætisráðherra, að Ike hafi farið yfir eyjuna miðja. Hann segir að fólk leiti skjóls í skápum í húsum sínum og undir stigum. Ekki er þó vitað um manntjón en stjórnvöld eru að reyna að koma fólki til hjálpar og í betra skjól.

  Vindhraði Ike, sem er fjórða stigs fellibylur, mælist nú vera um 60 metrar á sekúndu. Að sögn veðurfræðinga fylgir úrhelli fellibylnum, sem stefnir nú í áttina að Kúbu og Bahama-eyjum. Hann mun fara rétt fram hjá norðurhluta Haítí næsta sólarhringinn.

Íbúar Haítí eru enn að jafna sig eftir það óveður sem undan er gengið og hafa um 600 manns látist í landinu af völdum hamfaranna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert