John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, segir að hann muni velja demókrata í ríkisstjórn sína verði hann kjörinn forseti. Þetta vilji hann gera til að breyta hinu pólitíska landslagi í Washington.
„Ég veit ekki hversu marga, en ég get sagt ykkur það - með fullri virðingu fyrir fyrri ríkisstjórnum - að þetta mun ekki verða bara einn maður, „Jæja, nú erum við komin með demókrata“,“ sagði McCain í viðtali í þættinum Face the Nation, sem er sýndur á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS.
„Þetta verða hæfustu einstaklingarnir í Bandaríkjunum og gáfaðasta fólkið í Bandaríkjunum,“ sagði hann í viðtalinu, sem var tekið upp í gær en sýnt í dag.
Bæði McCain og keppinautur hans, Barack Obama, segjast vera boðberar nýrra tíma og breytinga í Washington. Þeir segjast vilja laga það sem aflaga er í bandarískum stjórnmálum.
Í um eitt og hálft ár hefur Obama lagt á það áherslu að hlutirnir verði að breytast. Sami boðskapur er farinn að heyrast æ meira úr herbúðum McCains, sem hingað til hefur lagt mesta áherslu í kosningabarátunni hve reynslumikill hann sé.