Þjóðargersemar brunnu til kaldra kola í Noregi

Mikill eldur logaði í húsunum.
Mikill eldur logaði í húsunum.

Mikilvægar fornminjar brunnu til kaldra kola í Björgvin í Noregi í nótt. Um er að ræða fjögur gömul friðuð timburhús (Skutesvikboden) sem eru talin vera frá 17. öld, ef ekki eldri, og stóðu við bryggjuna í bænum. Engan sakaði í eldsvoðanum en 12 var komið til bjargar.

Eldurinn kom upp á fjórða tímanum í nótt. Fornminjavörður talar um þjóðarsorg, að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum. Hitinn var svo mikill að rúður í húsum í nágrenninu sprungu, og var mikil hætta á því að eldurinn myndi breiðast út.

Eldurinn var loks slökktur um kl. 11:30 að norskum tíma og var þá ljóst að húsin væru ónýt, en þar var að finna skrifstofu- og íbúðarhúsnæði. Alls börðust 42 slökkviliðsmenn við eldana í nótt og í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert