Tyrkir og Armenar vilja sættast

Abdullah Gül og Serzh Sarkisian á fundi í Jerevan í …
Abdullah Gül og Serzh Sarkisian á fundi í Jerevan í gær. AP

Stjórnvöld í Armeníu og Tyrklandi hétu því að reyna að ná sáttum eftir nærri aldargamlar deilur vegna fjöldamorða á Armenum á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar. Abdullah Gül, forseti Tyrklands, fór í gær til Jerevan til að fylgjast með knattspyrnuleik Tyrkja og Armena og er það fyrsta heimsókn tyrknesks forseta til Armeníu.

Gül átti jafnframt fund með Serzh Sarkisian, forseta Armeníu, og á eftir sögðu forsetarnir að pólitískur vilji stæði til þess að bæta samskipti ríkjanna.

„Ég tel að heimsóknin hafi verið árangursrík og hún glæðir vonir um framtíðina," sagði Gül eftir að hann kom aftur til Ankara í gærkvöldi. Hann sagði að Sarkisian hefði lýst yfir stuðningi við myndun nýs ríkjahóps á Kákasussvæðinu í kjölfar átaka Rússa og Georgíumanna í ágúst.

Gül fékk hins vegar ekki sérlega hlýlegar viðtökur áhorfenda á Hrazdan leikvanginum í Jerevan í gær. Baulað var á hann þegar hann settist á bak við skothelt gler í viðhafnarstúku vallarins.  Tyrkir unnu leikinn 2:0.

Sarkisian sagði eftir fundinn með Gül að það væri pólitískur vilji til að leysa deilur landanna svo komandi kynslóðir muni ekki erfa þær. Hann sagði að Gül hefði boðið honum til Tyrklands í október á næsta ári þegar knattspyrnulið landanna eiga að mætast á ný.

Armenar hafa lengi barist fyrir því, að fjöldamorðin á árunum 1915-1917 verði skilgreind sem þjóðarmorð en gegn því hafa Tyrkir lagst.  Armenar segja, að allt að 1,5 milljónir manna hafi verið drepnar með skipulegum hætti en Tyrkir segja að 3-500 þúsund Armenar og jafn margir Tyrkir hafi fallið í borgarastyrjöld sem hófst þegar Armenar gripu til vopna í sjálfstæðisbaráttu gegn Tyrkjum og gengu til liðs við Rússa, sem réðust inn í landið.

Tyrkir hafa hafnað því að taka upp stjórnmálasamband við Armeníu, sem varð sjálfstætt ríki árið 1991 þegar Sovétríkin liðuðust í sundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka