Fellibylurinn Ike fer nú eins og stormsveipur yfir Kúbu og hafa yfir níu hundruð þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín á eyjunni. Víða hafa þök farið af húsum og tré rifnað upp með rótum á Kúbu í morgun og er óttast að Ike eigi eftir að eyðileggja sögufrægar byggingar í Havana. Ike er nú skilgreindur sem annars stigs fellibylur.
Þegar Ike náði landi á Kúbu var hann skilgreindur sem þriðja stigs fellibylur en heldur hefur dregið úr styrk hans og er hann eins og áður sagði nú annars stigs fellibylur. Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofu Kúbu er gert ráð fyrir að Ike fari yfir höfuðborg landsins, Havana í fyrramálið en alls búa um tvær milljónir í borginni. Þegar hefur skólum verið lokað í borginni og allt innanlandsflug liggur niðri til og frá borginni.
Stöðugur straumur frá Key West
Á Key West á Flórída hafa íbúar og ferðamenn verið beðnir um að koma sér í öruggt skjól og er stöðugur straumur á hraðbrautinni frá eyjunni til meginlandsins. Er talið að Ike komi til Flórída síðar í vikunni og þaðan stefni hann á New Orleans.
Á Haíti létust 319 manns er Ike reið þar yfir og mikil eyðilegging er á eyjunni. Áður hafði fárviðrið valdið gífurlegri eyðileggingu á Turks- og Caicoseyjum, suður af Bahamaeyjum í Karíbahafinu.
Hrina fárviðra hefur gengið yfir karabísku eyjarnar að undanförnu og hefur Ike aukið á neyðina á Haítí, eftir að fellibylurinn Hanna olli þar gífurlegri eyðileggingu fyrir helgi.
Ölduhæðin gríðarleg
Gríðarlegt úrhelli fylgir Ike á Kúbu en hann er nú yfir austurhluta eyjunnar. Miklar flóðbylgjur gengu á land í strandbæjum og í borginni Baracoa var ölduhæðin slík að hún reið yfir hús sem eru fimm hæðir. Stjórnvöld á Kúbu hafa beðið íbúa landsins að halda sig inni við og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón.
Fídel Kastró, fyrrverandi forseti Kúbu, hefur ekki látið sitt eftir liggja og birtu fjölmiðlar yfirlýsingu frá honum þar sem hann biður landsmenn um að gera öryggisráðstafanir til þess að koma í veg fyrir manntjón af völdum Ike.