Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, segir ekkert benda til annars en að Sarah Palin, ríkisstjóri Alaska og varaforsetaefni repúblíkana í kosningunum í nóvember, muni valda starfi varaforseta.
Cheney, sem staddur er í Róm, sagði við blaðamenn í morgun að hann hafi hrifist mjög af ræðu Palin á flokksþingi repúblíkana.
„Mér fannst frammistaða hennar á þinginu framúrskarandi,” sagði hann. Spurður um það hvort hann héldi að Palin myndi valda varaforsetaembættinu, sagði hann: „Það koma allir með sína eigin reynslu í embættið og mismunandi skilning á því í samræmi við það hver forsetinn er,” sagði hann.
„Hver stjórn er einstök og það er ekkert sem bendir til annars en að Sarah Palin geti skilað árangri í starfi varaforseta í stjórn McCain. Þá sagði hann að stjórn McCain verði aldrei alveg eins og stjórn Bush en að fyrri stjórn Bush hafi heldur ekki verið alveg eins og seinni stjórn hans.