Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, segir ekkert benda til annars en að Sarah Palin, ríkisstjóri Alaska og varaforsetaefni repúblíkana í kosningunum í nóvember, muni valda starfi varaforseta.
Cheney, sem staddur er í Róm, sagði við blaðamenn í morgun að hann hafi hrifist mjög af ræðu Palin á flokksþingi repúblíkana.
„Mér fannst frammistaða hennar á þinginu framúrskarandi,” sagði hann. Spurður um það hvort hann héldi að Palin myndi valda varaforsetaembættinu, sagði hann: „Það koma allir með sína eigin reynslu í embættið og mismunandi skilning á því í samræmi við það hver forsetinn er,” sagði hann.
„Hver stjórn er einstök og það er ekkert sem bendir til annars en að Sarah Palin geti skilað árangri í starfi varaforseta í stjórn McCain. Þá sagði hann að stjórn McCain verði aldrei alveg eins og stjórn Bush en að fyrri stjórn Bush hafi heldur ekki verið alveg eins og seinni stjórn hans.
Talsmaður Cheney hafði áður greint frá því að Cheney hafi hitt Palin áður en hún var tilnefnd sem varaforsetaefni og að hann hafi hringt í hana og óskað henni til hamingju með tilnefninguna skömmu eftir að greint var frá henni.