George W. Bush, Bandaríkjaforseti, áformar að fækka bandarískum hermönnum í Írak um 8 þúsund í byrjun næsta árs áður en hann lætur af embætti forseta. Bush segir, að ef staða öryggismála í Írak haldi áfram að batna verði hægt að fækka hermönnum enn meira á fyrri hluta næsta árs.
Bush mun kynna áform sín nánar í ræðu á morgun en úrdrætti af ræðunni var dreift til fréttamanna í Washington í kvöld.
Ein sveit landgönguliða, um 1000 manns, mun fara heim eins og áætlað var í nóvember og ekki verða sendir út hermenn í staðinn. Þá mun herfylki, sem telur 3500-4000 hermenn, fara heim í febrúar auk 3400 hermanna sem hafa veitt herfylkinu stuðning.
Þessir liðsflutningar gefa Bandaríkjaher færi á að auka liðsstyrk sinn í Afganistan.
„Niðurstaðan er þessi: Þótt óvinurinn í Írak sé enn hættulegur höfum við náð frumkvæðinu og íraski herinn verður æ betur í stakk búinn til að vinna stríðið," segir Bush.