George W. Bush Bandaríkjaforseti ákvað í dag að fresta gildistöku kjarnorkusamkomulags, sem Rússar og Bandaríkjamenn hafa undirritað, vegna Georgíudeilunnar.
Tilkynnt var um þetta á sama tíma og bandarísk stjórnvöld greindu frá því að þau fylgist vel með ferðum Rússum sem hyggjast stunda heræfingar við strendur Venesúela, með þarlendum sjóher.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að Bush hafi ákveðið að fresta gildistöku samkomulagsins, en Bandaríkjaþing hefur verið með málið til skoðunar.
„Það er með eftirsjá sem við grípum til þessara aðgerða,“ sagði Rice í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér. „Því miður, miðað við núverandi ástand, er þetta samkomulag ekki tímabært.“
„Forsetinn hyggst láta Bandaríkjaþing vita að hann hafi fellt úr gildi fyrri ákvörðun varðandi samkomulag Bandaríkjanna og Rússa um friðsamlega kjarnorkusamvinnu,“ segir Rice í yfirlýsingunni.