Spennan fer vaxandi í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. Nú sýnir ný skoðanakönnun, að John McCain, frambjóðandi Repúblikana, hefur náð forskoti á Barack Obama, frambjóðanda Demókrata, en fyrir viku var staðan allt önnur.
Könnunin, sem Gallup gerði fyrir USA Today, sýnir að 50% aðspurðra sögðust myndu kjósa McCain, ef kosið yrði nú, en 46% sögðust myndu kjósa Obama. Fyrir viku hafði Obama 7 prósentna forskot í samskonar könnun.
Sérfræðingar segja að ástæðan fyrir þessum viðsnúningi sé flokksþing repúblikana í síðustu viku og sú athygli, sem Sarah Palin, varaforsetaefni McCains, fékk.