Rússneskur her frá Georgíu um miðjan október

Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, sagði eftir viðræður við Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, í Moskvu í dag, að rússneskar hersveitir verði fluttar frá óumdeildum landssvæðum Georgíu um miðjan október eftir að friðargæslumenn frá Evrópusambandinu hefja eftirlit í Suður-Ossetíu. 

Gert er ráð fyrir að 300 eftirlitsmenn frá Evrópusambandinu komi til Suður-Ossetíu í næsta mánuði.

Medvedev sagði einnig, að alþjóðlegar viðræður um átökin í Georgíu hefjist 15. október í Genf. Hann sagðist gera ráð fyrir að rússneskar hersveitir  muni fara frá svæðum nálægt hafnarborginni Poti á næstu dögum, en þó því aðeins að Georgíumenn skrifi undir yfirlýsingu um að þeir muni ekki beita vopnavaldi í Abkhasíu.

Sarkozy kom til Moskvu í dag og átti fjögurra klukkustunda fund með Medvedev. Javier Solana, utanríkismálastjóri ESB, og José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, sátu einnig fundinn í Moskvu.

Medvedev fullyrti á blaðamannafundi með Sarkozy, að Rússar færu eftir ákvæðum vopnahléssamkomulags, sem Sarkozy hafði forgöngu um í ágúst. Þá gaf hann einnig í skyn, að Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, hefði fengið beinar skipanir frá Bandaríkjastjórn um að hefja „fáránlegar aðgerðir" gegn Suður-Ossetíu.

„Fólk lét lífið og nú þurfa allir Georgíumenn að gjalda fyrir það," sagði Medvedev. 

Nicolas Sarkozy og Dímitrí Medvedev takast í hendur fyrir fund …
Nicolas Sarkozy og Dímitrí Medvedev takast í hendur fyrir fund þeirra í Kreml í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert