Þriggja ára stúlka hlaut minniháttar meiðsl eftir að hafa sogast niður í opið niðurfall og skolast um 70 metra eftir vatnsfylltu röri neðanjarðar. För stúlkunnar endaði úti í vatnsmikilli á þar sem faðir hennar og slökkviliðsmenn björguðu henni með snarræði.
Hundur fjölskyldunnar sem einnig kastaði sér til sunds í ánna hefur ekki sést síðan.
Óhappið varð í grennd við barnaleikvöll í Durham í Englandi en undanfarna daga hafa flóð valdið miklum usla á Bretlandseyjum.
Stúlkan steig óvart ofan í opið niðurfall sem hulið var grasi, en átti því láni að fagna að ekki var grind fyrir opi rörsins við árbakkann.
Slökkviliðsmenn á gúmbátum björguðu síðan bæði föður og dóttur upp úr ánni. Stúlkan vistast samkvæmt fréttavef Sky á sjúkrahúsi, mikið marin og lasin en er ekki í lífshættu.