Talsmenn Bandaríkjahers hafa viðurkennt að hernum gangi illa í baráttunni við uppreisnarmenn í Afganistan. Hann sé ekki að sigra. Greint var frá því í dag að hernaðaráætlunin, varðandi það hvernig megi uppræta vígi uppreisnarmanna í Pakistan, verði tekin til endurskoðunar.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Mike Mullen, yfirmaður bandaríska heraflans, tjáðu hermálanefnd Bandaríkjaþings í dag að ef árangur eigi að nást í Afganistan verði þáttur óbreyttra borgara að aukast. Ekki sé nóg að einblína á hernaðarátök.
„Í hreinskilni sagt þá held ég að við séum að falla á tíma,“ sagði Mullen.
„Ég er ekki sannfærður um að við séum að sigra í Afganistan. Ég er hins vegar sannfærður um að við getum það,“ sagði Mullen þegar hann fór yfir aðgerðir Bandaríkjahers í Afganistan sl. sjö ár.
Ofbeldisverkum í Afganistan hefur fjölgað gríðarlega sl. tvö ár, en liðsmenn al-Qaeda og talibana hafa verið að safna liði og styrkjast í afskekktum héruðum sem liggja á milli Afganistan og Pakistan.
Ríkisstjórn George W. Bush hefur sagt að fleiri hermenn verða sendir til Afganistans. Sumir eru hins vegar á því að það sé ekki nóg að senda hermenn þangað. Menn verði einnig að beina sjónum sínum að Pakistan, en þar er talið að Osama bin Laden, leiðtogi al-Qaeda, sé í felum.