Ike yfir Mexikóflóa

Fellibylurinn Ike er nú á leið yfir Mexikóflóa eftir að hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar á Kúbu. Ike er nú flokkaður sem fyrsta flokks fellibylur en því er spáð að hann styrkist og verði að þriðja flokks fellibyl.

Ike er þegar byrjaður að styrkjast og því er spáð að hann verði orðinn að öflugum þriðja flokks fellibyl þegar hann skellur á Texas, norður Mexikó eða vestur Louisiana. Mikill léttir er í Bandaríkjunum vegna þess að líklegt þykir að Ike sneið framhjá olíuborpöllum á Mexikóflóa en þar er um fjórðungur olíu í Bandaríkjunum unninn.

Nú þegar hafa um 80 manns látist vegna Ikes í Karabíska hafinu og um 7500 þjóðvarðliðar eru á vakt í Texas.

Sjónvarp Kúbu segir að um 2,6 milljón manns, um fjórðungur íbúa eyjarinnar, hafi leitað skjóls undan Ike og að hundruðir heimila hafi eyðilagst.

Ike eyðilagði mikið í bænum Loas Palacios en bærinn varð illa fyrir barðinu á Gustav nú fyrir skemmstu. Nú eru um tveir þriðjuhlutar húsa í bænum án þaks eða hreinlega jöfnuð við jörðu.

Talið er að tjón vegna Ikes nemi allt að þrjú hundruð milljörðum.

Þá olli Ike skemmdum í Havana þegar gamlar, hrörlegar byggingar í sögulegum hluta Havana hrundu.

Um tíu þúsund ferðamenn voru fluttir af strandsvæðum austur af Havana, aðallega frá Varadero ströndinni.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert