Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblíkana, sætir nú gagnrýni fyrir það í fjölmiðlum þar í landi að hafa veitt villandi upplýsingar um afstöðu sína til hugmynda um umdeilda brúarbyggingu í Alaska. Palin hefur haldið ræður en ekki svarað spurningum fjölmiðla eða veitt viðtöl frá því tilkynnt var út útnefningu hennar sem varaforsetaefnis John McCain. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Palin lýsti því yfir í ræðu sem hún hélt í bænum Lebanon í Ohio í gær að hún hafi lagst gegn byggingu brúar „út í buskann”. „Ég sagði við Bandaríkjaþing, takk en nei takk fyrir brú út í buskann í Alaska.” sagði hún. Þá sagði hún að vildu Alaskabúa brú myndu þeir byggja hana sjálfir.
Fréttamenn hafa hins vegar bent á það að upphaflega hafi Palin stutt byggingu brúarinnar, sem átti að tengja bæinn Ketchikan við flugvöll á eyjunni Gravina. Ríkisstjórn Palin féll frá áformum um brúarbygginguna á síðasta ári en hélt fjármunum sem hún hafði fengið frá alríkisstjórninni til framkvæmdarinnar. Þeim var síðar varið til annarra samgönguverkefna.
Meg Stapleton, fyrrum aðstoðarmaður hennar, segir hana hafa fallið frá stuðningi við brúarbygginguna þar sem kostnaðaráætlun hafi hækkað mikið. „Það var ekki um sömu brú að ræða þegar hún var í framboði og þegar hún var orðin ríkisstjóri,” segir hún. „Hún veit að við getum gert þetta fyrir mun minna fé og að ríkið ræður við það.”
Einnig hefur verið bent á það í fjölmiðlum í Bandaríkjunum að yfirlýsing Palin um að hún hafi sett einkaþotu sem fyrri ríkisstjóri Alaska hafi keypt á uppboð á eBay, hafi verið villandi. Þotan hafi vissulega verið boðin þar til sölu en þar sem ekki hafi borist viðunandi tilboð í hana hafi hún verið seld undir kostnaðarverði fyrir milligöngu hefðbundins sölumanns.
Barack Obama, forsetaframbjóðandi demókrata, ýjaði að því á mánudag að Palin væri ekki öll þar sem hún væri séð. „Það er ekki bara hægt að skálda upp hluti,” sagði hann. „Það er ekki bara hægt að endurskapa sig. Bandaríska þjóðin er ekki heimsk.” Þá sagði hann Palin hafa sýnt það í starfi sínu sem ríkisstjóri Alaska að hún sé meira og minna fylgjandi öllu því sem McCain leggist gegn.