George W. Bush, Bandaríkjaforseti samþykkti árásir á vígamenn innan landamæra Pakistans án þess að leita eftir samþykki frá yfirvöldum í Islamabad. Samkvæmt heimildum fréttavefjar BBC innan Pentagon hefur slík leynileg fyrirskipun komið frá forsetanum síðast liðna tvo mánuði.
Í gær var tilkynnt að Bandaríkin hygðust breyta hernaðaráætlunum sínum í Afganistan og fara að stunda árásir yfir landamæri Pakistans.
Í Pakistan segja yfirvöld að þau muni ekki leyfa erlendum herjum inn á sitt yfirráðasvæði.
Yfirmaður Pakistanska hersins, Ashfaq Parvez Kayani hershöfðingi segir að það sé enginn vafi á því að það ríki ekkert samkomulag eða skilningur á því að herir bandamanna í Afganistan hafi leyfi til að stjórna eða taka þátt í hernaðaraðgerðum í Pakistan.