Kúbönsk yfirvöld hafa sakað Bandaríkin um að veita fögur loforð um aðstoð sem þau hyggjast ekki standa við. Bandaríkin hétu því að senda teymi til að meta þörf fyrir aðstoð og níu milljónir íslenskra króna í kjölfar þeirrar eyðileggingar sem fellibylirnir Gustav og Ike hafa valdið.
Kúbönsk yfirvöld segist hafa sín eigin teymi sem geti lagt mat á eyðilegginguna og þörf á neyðaraðstoð og að Bandaríkin segist vilja veita Kúbu neyðaraðstoð en geri síðan ekkert til að lina þjáningar á eyjunni.
Þúsundir heimila og mikilvæg uppskera eyðilögðust á þeim tíu dögum sem fellibylirnir gengu yfir eyjuna. Fjöldi landa hefur boðið fram aðstoð sína, þar á meðal eru Spánn, Venesúela og Brasilía.
Í síðustu viku hvatti Kúba Washington til að slaka á því viðskiptabanni sem gilt hefur frá 1962 til að gera bandarískum fyrirtækjum kleift að geta flutt matvæli til eyjarinnar og þeirra 11 milljón íbúa sem þar búa.