Nýtt hneykslismál er í uppsiglingu í Bandaríkjunum þar sem kynlíf, eiturlyf og olíuleit á grunnsævi koma við sögu. Þetta er kannski skrýtin blanda og hún hefði ekki getað komið á verri tíma fyrir þá sem þingmenn sem styðja það að aukinn kraftur verði settur í olíuleit við strendur Bandaríkjanna og fleiri olíuleitarleyfi verði gefin út.
Í rannsókn sem innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur unnið kemur ýmislegt misjafnt í ljós. Samkvæmt skýrslu sem innanríkisráðuneytið gaf út kemur fram að starfsmenn stofnunar innan innanríkisráðuneytisins, sem meðal annars fer með olíuleitarverkefni, Minerals Management Service, hafi þegið gjafir frá orkufyrirtækjum sem þeir hafa átt viðskipti við á opinberum vettvangi.
Ekki nóg með það heldur hafa þeir þegið mútur af ýmsu tagi, svo sem skíðaferðir og golfferðir auk þess að hafa tekið þátt í veislum, tekið eiturlyf og iðkað kynlíf, allt á kostnað orkufyrirtækjanna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu innanríkisráðuneytisins en rannsókn málsins hefur tekið tvö ár og kostað 5,3 milljónir Bandaríkjadala. Málið hefði ekki getað komið upp á yfirborðið á verri tíma fyrir þá sem styðja það að heimild verði gefin til frekari olíuleitar við strendur Bandaríkjanna en málið verður tekið fyrir á Bandaríkjaþingi í næstu viku.
Samkvæmt skýrslunni tóku nítján starfsmenn Minerals Management Service í Denver, um það bil þriðjungur starfsmanna skrifstofunnar, þátt í athæfinu á árunum 2002-2006. Meðal fyrirtækja sem umbunuðu starfsmönnunum eru Chevron og Shell.
Segir í skýrslunni að starfsmenn MMS neyttu ítrekað áfengis í starfi sem og kókaíns og marijúana og áttu í kynferðissambandi við starfsmenn olíu- og gasfyrirtækjanna eða aðila nátengda þeim. Auk þess sem einn af yfirmönnum MMS þáði um 30 þúsund dali fyrir ráðgjafarstörf í tengslum við samskipti við olíufélögin.
Yfirmaður MMS, Randall Luthi, segir að skrifstofan líti niðurstöðu skýrslunnar alvarlegum augum og gripið verði til viðeigandi ráðstafana.
Innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Dirk Kempthorne, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að gripið verði til ráðstafana strax og að hann væri hneykslaður á framferði starfsmanna MMS sem margir hverjir hefðu unnið um árabil hjá stofnuninni.