Minnismerki um fórnarlömb 11. september vígt í Washington

Þúsundir söfnuðust saman við fyrsta minnismerkið í Washington um hryðjuverkaárásina á Pentagon árið 2001 og minntust í þögn þeirra 184 sem fórust þegar fimm hryðjuverkamenn flugu farþegaþotu á Pentagon-bygginguna.

Sjóliði hringdi bjöllu fyrir hvert fórnarlambanna sem fórust í árásinni er kom í kjölfar þess að tveimur farþegaþotum var flogið á tvíburaturna World Trade Center í New York. Fjórða farþegaþotan sem hryðjuverkamenn rændu féll til jarðar í Pennsylvaníu.

Landgönguliði blés í lúður af þaki Pentagon þar sem slökkviliðsmenn drógu niður bandaríska fánann og brutu saman þegar byggingin stóð í ljósum logum 11. september 2001.

Við undirleik sekkjapípa og kóra fylgdust aðstandendur þeirra sem fórust ásamt fyrirmönnum og starfsfólki Pentagon með athöfn við minnismerkið nálægt þeim stað sem farþegaþotunni var flogið á bygginguna.

Fyrrum varnarmálaráðherra Donald Rumsfeld var viðstaddur ásamt George W. Bush Bandaríkjaforseta og Robert Gates, núverandi varnarmálaráðherra, þegar fáni var dreginn að húni yfir minnismerkinu.

Minnismerkið er torg með nokkrum einingum eða stokkum sem hanga yfir og speglast á votum flísum og á hvern stokk er ritað nafn þeirra sem fórust í árásinni.

Stokkarnir fyrir þá 59 sem fórust með American Airlines Flugi 77 er þannig komið fyrir að þegar nöfn þeirra eru lesin er horft til himins en stokkum þeirra 125 sem fórust innan dyra í Pentagon er þannig komið fyrir að nöfnin og Pentagon sjást í sama sjónarhorni.

Stokkunum er að auki komið fyrir með tilliti til aldurs fórnarlambanna þar sem byrjað er á Dana Falkenberg, 3ja ára, og endað á John Yamnicky, 71 árs. 

Minnismerkið við Pentagon
Minnismerkið við Pentagon Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka