Sjómenn sneru á sjóræningja

Frönsk skúta sem sjóræningjar náðu á sitt vald fyrr í …
Frönsk skúta sem sjóræningjar náðu á sitt vald fyrr í þessum mánuði. Reuters

Spænskur fiskibátur á túnfisksveiðum fyrir utan ströndum Sómalíu slapp naumlega undan sjóræningjum í dag. Báturinn sem er skráður í Bermeo á Spáni er með 20 manna áhöfn sem sá þrjá hraðbáta stefna að sér skömmu eftir sólsetur.

Fiskibáturinn snéri í skyndi út á opið haf og hélt þeirri stefnu uns sjóræningjarnir gáfust upp og hættu eftirförinni. Engum skotum var skotið og engan sakaði.

Í apríl á þessu ári tóku sjóræningjar samskonar bát frá sömu útgerð trausta taki og héldu honum og áhöfninni í gíslingu í sex daga. Ekki hefur verið gefið upp hvort lausnargjald hafi verið greitt þá en fréttaskýrendur á AP fréttastofunni segja að slík lausnargjöld séu ríkuleg tekjulind fyrir sjóræningja sem starfa á þessum slóðum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert