Sala á matvælum og öðrum nauðsynjavörum hefur dregist saman í Danmörku að undanförnu í fyrsta skipti í áraraðir, samkvæmt upplýsingum dönsku hagstofunnar Danmarks Statistik. Segja sérfræðingar ástæðuna vera þá að Danir séu farnir að borða endabrauðsneiðarog nýta matarafganga betur en þeir hafi gert undanfarin ár. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Þegar efnahagsástandið versnar fara margir að borða endabrauðsneiðarnar. Bara það getur leitt til 10% minni sölu á 20 sneiða brauðum. Við sjáum einnig að þeir sem áður keyptu rúgbrauðspakka með 1.400 grömmum kaupa nú 1.000 grömm eða 750 grömm. Þannig ná neytendur frekar að borða allt brauðið áður en það verður of gamalt. Afleiðingin er sú að minna magni af mat erfleygt og sala dregst saman,” segir Jan Gerber, framkvæmdastjóri bakarísins Kohberg Brød.
Danskir kjötsalar hafa einnig orðið varir við sömu þróun. „Nú kaupir fólk bara nákvæmlega þau 700 grömm af skinku sem það þarf að nota. Áður keyptu margir kíló og hentu afganginum í ruslið eða í frystirinn,” segir Leif Laustsen, formaður samtakanna Danske Slagtermestre.
Leif Nielsen, yfirhagfræðingur samtakanna Landbrugsraadet, segir afganga nú einnig nýtta betur en áður. „Það þykir orðið fínt að borða afganga. Sé eitthvað eftir af máltíð dagsins þá er það nýtt seinna. Fólk kaupir einnig inn fyrir fleiri daga í einu þannig að nýtnin verði sem mest,” segir hann.