Danskir lögregluþjónar verða í auknum mæli fyrir ofbeldi við störf sín. Á síðasta ári meiddust 777 lögregluþjónar við störf, þar af 154 við handtökur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá dönsku ríkislögreglunni, saksóknaraembættinu og samtökum lögregluþjóna.
Peter Ibsen, formaður samtaka lögregluþjóna segir ofbeldið alvarlegt og vaxandi vandamál. Lögreglumönnum sé sýnd minni virðing en áður.
Í skýrslunni er bent á að lögregluembættið beri ábyrgð á að minnka áhættuna á slíku ofbeldi með menntun, nýjum starfsaðferðum og betri útbúnaði lögreglumanna.
Formaður samtaka lögregluþjóna segir hins vegar að breyttur útbúnaður leysi ekki vandann. Viðhorfsbreytingar sé þörf innan samfélagsins.
Hægt er að lesa skýrsluna í heild á vefnum www.Politi.dk