Slökkviliðsmönnum hefur loks tekist að slökkva eld, sem kviknaði í tankbíl í flutningalest í Ermarsundsgöngunum í gær. Göngin hafa verið lokuð fyrir umferð frá því um miðjan dag í gær.
Embættismenn segja, að slökkviliðsmenn hafi verið að störfum í alla nótt og hitinn í göngunum hafi komist í 1000 gráður á Celsius. Nú eru um 100 breskir og franskir slökkviliðsmenn á staðnum. Verið er að kæla göngin niður.
Tugir þúsunda ferðamanna hafa ekki komist leiðar sinnar milli Frakklands og Englands vegna eldsvoðans.