Langdrægar rússneskar sprengiflugvélar flugu yfir Atlantshafið í gær til að taka þátt í heræfingum í Karíbahafi. Flugvélarnar hafa viðdvöl á herflugvelli í Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela, fagnaði komu Tupolev Tu-160 sprengiflugvélanna og sagðist jafnvel vonast til að fá að fljúga annarri þeirra sjálfur.
Chavez segir að æfingin sé til marks um að heimurinn sé að þokast frá því að Bandaríkin gnæfi yfir aðrar þjóðir á alþjóðasviðinu. „Forysta Kanans er að baki,“ segir hann.
Þetta er í fyrsta sinn sem sem rússneskar sprengivélar hafa lent á Vesturlöndum síðan kalda stríðinu lauk. Þær hófu för sína í norðurhluta Rússlands og flugu í þrettán klukkustundir yfir Norður-Íshaf og Atlantshaf. Interfax hefur eftir Alexander Drobísjevskí ofursta að herþotur NATO hafi fylgt sprengivélunum alla leiðina.
„Allt flug flughersins er og hefur verið í fullu samræmi við alþjóðlegar reglur um loftferðir yfir alþjóðlegu hafsvæði,“ segir Drobísjevskí og bætir við að ekki séu kjarnavopn um borð í vélunum. „Flugvélarnar munu fara í æfingarflug yfir hlutlausu hafsvæði í nokkra daga, áður en þær snúa til síns heima.“
Venesúela hefur líkt og Rússland hagnast feikilega á hækkun olíuverðs undanfarið og eru Bandaríkin einn helsti kaupandi venesúelskrar olíu. Ríkisstjórn Chavez hefur upp á síðkastið nýtt olíugróðann til að kaupa vígbúnað frá Rússlandi fyrir milljarða Bandaríkjadala. Meðal þess sem hefur verið á innkaupalista Venesúela eru þyrlur, Kalashnikov-rifflar og orrustuþotur.
Chavez lýsti því yfir í vikunni að til stæði að festa kaup á rússneskum kafbátum. Þá munu Rússar hjálpa Venesúela að koma sér upp loftvarnarkerfi.
Auk sprengiflugvélanna tveggja munu fjögur herskip og kafbátar vera við æfingar undan ströndum Venesúela. Þeirra á meðal er beitiskipið Pétur mikli og tundurspillirinn Tsjabanenkó aðmíráll – tvö öflugustu skip Rússaflota. Alls munu um 1.000 hermenn koma að æfingunum.
„Rússland er að komast aftur á það stig í afli og alþjóðasamskiptum sem það missti því miður við lok síðustu aldar,“ segir rússneski aðmírállinn Eduard Baltin.