Elisabeth Fritzl, sem haldið var í jarðhýsi í Austurríki í 24 ár, segir föður sinn Josef Frizl, sem hélt henni fanginni og gat henni sjö börn, hafa sýnt sé mikið harðræði og notað börn þeirra til að kúga hana til samræðis við sig. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Féllist ég ekki á kynlíf bitnaði það á börnunum," segir í vitnisburði hennar fyrir dómara, sem breska blaðið The Sun hefur fengið aðgang að. Þá segir hún föður sinn hafa nauðgað sér um það bil þrisvar í viku allan þann tíma sem hann hélt henni fanginni.
„Við vissum að hann myndi slá okkur eða að eitthvað illt myndi henda okkur,” segir hún. “Hann sagði að hann gæti læst hurðinni og að þá myndi koma í ljós hvort við myndum lifa af án hans.”
Þá segir hún að þegar Fritzl hafi ekki verið viðstaddur hafi hún reynt að lifa sem eðlilegustu lífi með börnum sínum en að þegar hann hafi verið í jarðhýsinu hafi ríkt þögn. „Hann var hreinlega alvaldur,” segir hún. „Hann niðurlægði mig fyrir framan börnin. Þegar við sátum til borðs og einhver hélt vitlaust á gaffli var hann níddur niður.”
Elizabeth hafnaði í ágúst boði yfirvald í landinu um að hún og börn hennar fái ný nöfn og kennitölur. Mun ástæðan vera sú að hún hyggist búa sér og börnum sínum sameiginlegt heimili á heimaslóðum sínum og hún telji ómögulegt að fela slóðir sjö einstaklinga nema með því að flytja á milli landa.
Til stendur að Elizabeth og börn hennar flytji af geðsjúkrahúsi, þar sem þau hafa dvalið, eftir að réttað hefur verið yfir föður hennar í desember.