Boðað til neyðarfundar um Bólivíu

Yfirvöld í Chile hafa boðað fulltrúa ríkja í Rómönsku-Ameríkuríkja til neyðarfundar um ástandið í Bólivíu á mánudag en neyðarástandi var lýst yfir í Pando-héraði í austurhluta landsins á fimmtudag.  

Evo Morales, forseti landsins, lýsti því yfir í dag að hann muni ekki hika við að lýsa yfir neyðarástandi í nágrannahéruðum Pando telji hann þörf á því.  

Neyðarástandi var lýst yfir áður en stórnarher landsins réðst til atlögu við uppreinarmenn, sem höfðu náð opinberum byggingum, flugvöllum og olíuleiðslum á sitt vald.  

Alfredo Rada, innanríkisráðherra Bólivíu, hefur sagt að 16 manns hafi látist í átökum í héraðinu undanfarna daga og að allir hafa fallið í árásum uppreisnarmanna. Þá segir hann að flestir hafi þeir verið smábændur sem studdu stjórn Morales. Síðan þá munu tveir til viðbótar hafa látist af sárum sínum. 

Það hefur ýtt mjög undir ólgu í Bólivíu að til stendur að þjóðaratkvæðagreiðsla um lagabreytingar, sem munu auka völd alríkisyfirvalda, gera Morales fært að bjóða sig fram að nýju og færa land frá stórbændum til smábænda, á að fara fram þann 7. desember.

Bæði Morales og  Hugo Chavez, forseti Venesúela hafa vísað sendiherrum Bandaríkjanna úr landi þar sem þeir saka bandarísk yfirvöld um að ýta undir ólguna í Bólivíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert