Áttatíu og átta létu lífið er farþegaflugvél hrapaði í útjaðri rússnesku borgarinnar Perm í miðhluta landsins í nótt. Vélin var af gerðinni Boeing 737-500 og í eigu rússneska ríkisflugfélagsins Aeroflot. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Að minnsta kosti 21 útlendingur var á meðal farþega vélarinnar, sem var á leið frá Moskvu til Perm. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda slitnaði samband við vélina er hún kom inn til lendingar í Perm og síðar fannst flak hennar í útjaðri Perm. Sjónarvottar segja eld hafa logað í vélinni áður en hún skall til jarðar.
82 farþegar og 6 manna áhöfn voru í vélinni. Meðal þeirra sem létust voru Bandaríkjamenn, Frakkar, Tyrkir, Svisslendingar, Þjóðverjar, Ítalar og Lettar.