Talsmaður Barack Obama, forsetaframbjóðanda bandarískra demókrata, segir John McCain, forsetaefni repúblíkana, reka óheiðarlegustu kosningabaráttu sem háð hafi verið um embætti forseta Bandaríkjanna í seinni tíð.
Talsmaðurinn Bill Burton sagði þetta er undir hann var borin gagnrýni á það að Obama skyldi ekki gera hlé á kosningabaráttu sinni á meðan fellibylurinn Ike gekk yfir Texas. „Við hlustum ekki á neina fyrirlestra John McCain, sem svo kaldhæðnislega sem það hljómar, rekur ómerkilegustu og minnst heiðarlegu kosningabaráttu sem rekin hefur verið,” sagði hann. „Ömurlegar auglýsingar hans með viðbjóðslegum lygum eru sýndar um allt land. Kosningabarátta hans er ekki þess verð að tengja hana við embætið sem hann sækist eftir.”
Obama þótti sjálfur mjög harðorður í garð McCain er hann ávarpaði fjöldafund í Manchester, New Hampshire í gær. Sagði hann McCain og varaforsetaefni hans Söruh Palin gera hvað sem er til að forðast málefnalegar umræður þar sem slíkt myndi leiða í ljós að þau hafi ekki upp á neitt annað að bjóða en framhald síðustu fjögurra ára.
„Þau munu tala um svín, þau munu tala um varalit, þau munu tala um Paris Hilton , þau munu tala um Britney Spears. Þau munu reyna að gera mig tortryggilegan og grafa undan trausti ykkar á því sem demókratar vilja gera,” sagði hann