Kim veiktist í apríl

Fékk aðsvif í Apríl.
Fékk aðsvif í Apríl. Reuters

Kim Jong-Il, leiðtogi Norður-Kóreu, fékk fyrst aðsvif í apríl og í kjölfarið versnaði heilsa hans það mikið, að hann gat ekki tekið stjórnsýslulegar ákvarðanir. Þetta kemur fram í japanska blaðinu Mainichi Shimbun í dag.

Blaðið hefur eftir ónafngreindum kínverskum embættismanni, sem hefur náin tengsl við Norður-Kóreu, að veikindi Kims hafi haft áhrif á dómgreind hans og ákvarðanir, sem tengdust alþjóðlegum viðræðum um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreumanna. 

Kim hafði oft unnið frameftir á kvöldin en varð að breyta vinnuvenjum sínum í maí eða júní. Þegar kom fram á sumarið fór nýrna- og hjartveiki að hrjá leiðtogann.

Suður-kóreskir fjölmiðlar hafa sagt að Kim hafi veikst 15. ágúst og það þótti benda til þess að hann væri alvarlega veikur, að hann var ekki viðstaddur hátíðarhöld sem haldin voru í síðustu viku vegna 60 ára afmælis Norður-Kóreuríkis.  Kim hefur ekki sést opinberlega lengi og orðrómur var um að erlendir læknar hefðu verið fluttir til höfuðborgarinnar Pyongyang til að meðhöndla hann.

Annað japanskt dagblað, Asahi Shimbun, segir í dag að Kim hafi gengist undir hjartaaðgerð í apríl 2007. UM var að ræða æðablástur og óvíst er að sú aðgerð tengist veikindunum nú. 

Óttast er að veikindi norður-kóreska leiðtogans muni hafa áhrif á viðræður sex ríkja um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu. Stjórnvöld í Suður-Kóreu sögðu nýlega, að Norður-Kóreumenn væru byrjaðir að endurbyggja kjarnorkuver, sem þeir voru að rífa. Svo virtist sem með því væru þeir að mótmæla því að Bandaríkjamenn hafi ekki enn tekið Norður-Kóreu af lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi.

Norður-kóreskir hermenn á verði við herstöð við Yaluá í bænum …
Norður-kóreskir hermenn á verði við herstöð við Yaluá í bænum Sinuiju skammt við landamæri Kína. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert