Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum, heimsótti ekki bandaríska hermenn í Írak, eins og áður hafði verið fullyrt. Þetta staðfesti talsmaður Palins í gær. Einnig hafði verið sagt að Palin hefði heimsótt Írland en nú hefur komið í ljós að sú heimsókn var aðeins millilending á flugvellinum í Dublin.
Palin fór í sína fyrstu utanlandsferð í júlí á síðasta ári og heimsótti hermenn frá Alaska, sem höfðu bækistöðvar í Kúveit. Embættismenn í Alaska hafa sagt, að Palin hafi heimsótt bandaríska herstöðvar í Þýskalandi og Kúveit og einnig heimsótt Írland. Þá sagði aðstoðarmaður Palins, að hún hún hefði komið til herstöðvar í Írak.
Þessum upplýsingum var ætlað að sýna fram á, að Palin væri ekki algerlega reynslulaus á alþjóðlegum vettvangi. Nú hafa bandarískir fjölmiðlar, þar á meðal Boston Globe og CNN, upplýst að Palin fór aldrei yfir landamæri Kúveit og Íraks. Þá hefði flugvél Palins aðeins komið við á flugvellinum í Dublin til að taka eldsneyti.
Framboð Baracks Obama, frambjóðanda demókrata, var fljótt að færa sér þessar fréttir í nyt en liðsmenn Obama hafa sakað framboð Johns McCains, frambjóðanda repúblikana, um að segja ósatt í auglýsingum undanfarnar vikur. „Bandaríkjamenn eru farnir að velta því fyrir sér hvort framboð McCain segi satt um nokkurn skapaðan hlut," segir Tommy Vietor, kosningastjóri Obama, í yfirlýsingu.
McCain lenti í óvæntri ágjöf þegar hann kom fram í sjónvarpsþætti ABC, The View, á föstudag. Sjónvarpskonan Barbara Walters gekk þar hart að McCain og spurði hann m.a. hvað það væri, sem Palin væri ætlað að betrumbæta en repúblikanar hafa sagt að framboð McCains og Palins snérist um breytingar og umbætur. „Hvað á hún að endurbæta, þingið?" spurði Walters og benti á að McCain hefði setið á þingi í Washington í rúma tvo áratugi.
Þegar McCain svaraði að demókratar hefðu stýrt þinginu undanfarin tvö ár greip Walters fram í og sagði: „En segðu mér hvað hún á að betrumbæta - við erum ekki að tala um efnahagsmálin, fasteignamarkaðinn; hún var valin til að stýra umbótum, hvern á hún á betrumbæta?"
McCain svaraði og var greinilega brugðið: „Demókrataflokkinn, Repúblikanaflokkinn, jafnvel óháða. Hún mun umbylta allri Washington."
Önnur sjónvarpskona í þættinum, sakaði framboð McCains um að breiða út lygar um Obama í auglýsingum og spurði hvort McCain hefði samþykkt þessar auglýsingar. Frambjóðandinn svaraði: „Þetta eru raunar ekki ósannindi."