Eldur í hreyfli talinn orsök flugslyssins í Rússlandi

Flak vélarinnar.
Flak vélarinnar. Reuters

Svo virðist sem eldur hafi komið uppi í hægri hreyfli rússnesku farþegaþotunnar sem fórst með 88 manns, að því er embættismenn greindu frá í dag.

Engin ummerki hafi fundist í flakinu um sprengiefni, en látið hafði verið í veðri vaka í fjölmiðlum að hryðjuverk hafi grandað þotunni.

Þotan fórst í lendingu í gær við iðnaðarborgina Perm í Úralfjöllum. Kom hún niður nokkur hundruð metra frá íbúðabyggð.

Talsmenn flugfélagsins Aeroflot, sem átti vélina, segir veðurskilyrði hafa verið slæm er þotan fórst.

Flugritar vélarinnar hafa fundist, og mun taka nokkrar vikur að greina upplýsingar úr þeim.

Þotan var af gerðinni Boeing 737-500, smíðuð fyrir 15 árum. Hún var síðast skoðuð í ársbyrjun, en þá kom ekkert óeðlilegt í ljós, að sögn talsmanns Aeroflot.

Öryggisráðstafanir í flugi í Rússlandi og ýmsum öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum hafa á undanförnum árum verið einhverjar þær lélegustu í heiminum, samkvæmt Alþjóðasamtökum flugfélaga, IATA. Sérfræðingar segja að ástæður þess séu skortur á opinberum reglugerðum, léleg menntun flugmanna og sparnaðarráðstafanir flugfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert