Alþjóðlegi dýraverndunarsjóðurinn, IFAW, heldur því fram í nýrri skýrslu að hávaði í heimshöfunum valdi hvölum, höfrungum og öðrum sjávarspendýrum alvarlegum vandamálum.
Fram kemur í skýrslu IFAW að hávaðinn neðansjávar trufli bæði samskipti og fæðuöflun dýranna. Talið er að fjölmörg sjávarspendýr hafi drepist af völdum hljóðsjáa herskipa, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC).
Þar segir að á sumum svæðum tvöfaldist hávaðinn í hafinu á hverjum áratug, og að sögn IFAW er ekki nóg að gert til að vernda dýrin.
„Mannkynið er bókstaflega að drekkja sjávarspendýrum,“ segir Robbie Marsland, framkvæmdastjóri IFAW í Bretlandi.
Hann segir að á meðan enginn viti með nákvæmum hætti hvaða afleiðingar þetta hafi fyrir vissar dýrategundir geti það orðið um seinan þegar menn loks átta sig á þeim skaða sem þetta valdi dýrunum. Mikilvægt sé að alþjóðasamfélagið grípi þegar í stað til aðgerða til verndar dýrunum.