Stærstu stjórnmálaflokkarnir í Bretlandi verða að taka höndum saman um stefnu sem kemur í veg fyrir hrun samfélagsins af völdum aukinnar glæpatíðni og lögleysu, segja tveir breskir þingmenn, annar fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins og hinn fyrrverandi ráðherra úr röðum Verkamannaflokksins.
Frá þessu greinir BBC.
Hvetja þingmennirnir, Iain Duncan Smith og Graham Allen, til aukins opinbers stuðnings og ígripa í samfélaginu. Þörf sé á auknum aðgerðum til að auka möguleika fátækra barna í lífinu. Segja Duncan Smith og Allen, að núverandi stefna stjórnvalda til stuðnings þeim sem minna megi sín hafi verið gagnslaus í þrjá áratugi.
Duncan Smith, sem er fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins, og Allen, sem var atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, munu skila sameiginlegri skýrslu á morgun. Verður hún gefin út af tveim hugveitum, annarri á hægri kantinum en hinni þeim vinstri.
Verði ekkert að gert, segja þeir, mun Bretland „sitja uppi með nýja kynslóð truflaðra og árásargjarnra ungmenna sem eru dæmd til að auka á það samfélagshrun sem skemmir líf þeirra og fólksins í kringum þau.“
Í skýrslunni er hvatt til þess eindrægni allra flokka um mikilvægi þess að hrinda af stað verkefnum er stuðli að auknum möguleikum barna sem búa við skort alveg frá fæðingu.