Farþegar kröfðust annarrar flugvélar

AP

Farþegar um borð í þýskri farþegaþotu kröfðust þess að fá aðra vél, og fengu hana, eftir að tvisvar hafði verið hætt við flugtak vegna tæknilegra örðugleika. Sækja þurfti staðgönguvél til Tyrklands, og seinkaði þetta brottför um fjórtán tíma.

Það var ný Boeing 737-800 þota flugfélagsins Air Berlin sem bilaði. Hún átti að fara frá Nürnberg til Faro í Portúgal sl. sunnudagsmorgun, en gaumljós í mælaborði gaf til kynna að eitthvað væri að vængbörðum hennar.

Flugstjórinn bað því farþegana 172 að ganga frá borði á meðan gert væri við. Tveir þeirra hættu þá við ferðina.

Hinir voru síðan kallaðir um borð á ný, en enn kviknaði á gaumljósinu og urðu þeir því að fara aftur inn í flugstöð. Skrifuðu þeir þá undir beiðni til flugfélagsins um að fá aðra vél, og varð sem fyrr segir að sækja hana til Tyrklands, og seinka brottför um rúmlega hálfan sólarhring.

Talskona flugfélagsins segir þessi viðbrögð farþeganna greinilega mega rekja til flugslysanna sem nýlega hafi orðið á Spáni og í Rússlandi.

Af biluðu flugvélinni er það að segja að gert var við hana og hún tekin í gagnið á ný á sunnudaginn, en á annarri flugleið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert