Leiðtogar fjögurra héraða í Bólivíu slitu í gær friðarviðræðum við stjórn landsins eftir að héraðsstjóri var handtekinn og sakaður um að hafa skipulagt fjöldamorð.
Stjórnarhermenn í Cobija, höfuðstað héraðsins Pando, handtóku héraðsstjórann Leopoldo Fernandez. Evo Morales, forseti Bólivíu, hafði sakað héraðsstjórann um að hafa staðið fyrir árás úr launsátri á bændur sem ætluðu að taka þátt í fundi stuðningsmanna forsetans. Að minnsta kosti átján manns biðu bana í árásinni.
Að minnsta kosti 30 manns liggja í valnum og allt að 100 er saknað eftir mótmæli í Pando og þremur öðrum héruðum sem berjast fyrir auknum sjálfstjórnarréttindum. Miklar olíu- og gaslindir eru í héruðunum og leiðtogar þeirra eru andvígir áformum Morales um að nota tekjur af útflutningi á olíu- og jarðgasi til að bæta kjör indíána sem eru í meirihluta í Bólivíu. Héraðsstjórarnir leggjast einnig gegn áformum forsetans um að taka hluta af stærstu búgörðum landsins og úthluta þeim til fátækra bænda úr röðum indíána.