Ráðgjafi John McCain forsetaframbjóðanda Repúblíkanaflokksins sagði fréttamönnum i dag að frambjóðandinn hafi átt sinn þátt í að skapa BlackBerry farsímana. Douglas Holtz-Eakin rak í vörðurnar er hann var spurður hvaða reynslu McCain hefði af fjármálastjórnun og þegar gengið var á hann hélt hann BlackBerry-tæki á loft og sagði McCain hafa átt þátt í að skapa þetta undur.
McCain átti sæti í viðskiptanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og sagði Holtz-Eakin að McCain hafi með vinnu sinni þar átt þátt í að setja reglugerðir og fjarlægja reglugerðir sem ruddu veginn fyrir hina nýju fjarskiptatækni fyrir 15 árum.
„Ekki það fáránlegasta sem hann sagði þessa vikuna"
„Ef John McCain hefði ekki sagt að undirstöður efnahags bandarísku þjóðarinnar væru styrkar sama dag og þjóðin gengur í gegnum eina sinni verstu krísum á fjármálamörkuðunum þá hefði sú staðhæfing að hann fann upp BlackBerry tækið verið það fáránlegasta sem hann sagði þessa vikuna," hafði fréttavefur CNN eftir Matt McDonald talsmanni Barack Obama.