Fjögurra barna leitað í Danmörku

Lögregla í Varde í Danmörki leitar nú fjögurra barna eftir að til mikilla átaka kom á milli móður barnanna og fjölskyldu hennar annars vegar og föður þeirra og fjölskyldu hans hins vegar. Átökin brutust út er móðirin reyndi að yfirgefa eiginmann sinn og kallaði fjölskyldu sína og vini sér til aðstoðar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Vinir og fjölskylda konunnar mættu að heimili hjónanna á mánudagskvöld til að aðstoða hana við að flytja þaðan. Maðurinn kallaði hins vegar á föður sinn og þrjá þrjá bræður sér til aðstoðar við að hindra konuna í að yfirgefa heimilið. Óku þeir viljandi á bifreið foreldra konunnar er fólkið ók á brott í henni og fótbrotnaði móðir konunnar við það. Þá neyddu þeir konuna til að fara aftur með eiginmanni að heimili þeirra.

Aðstandendur konunnar létu lögreglu vita og síðar um nóttina tókst lögreglu að fá manninn til að láta hana lausa. Karlarnir fimm eru nú allir í haldi lögreglu en leitað er að fjórum börnum hjónanna.

„Faðirinn segist hafa beðið móður sína um að gæta þeirra og það getur vel verið að það sé rétt. Við höfum hins vegar hvorki fundið börnin né föðurömmu þeirra á heimili hennar. Þá mættu tvö barnanna, sem ganga í skóla, ekki í skólann í gær," segir Niels Kristian Hindsig, lögreglustjóri í Varde.

Aðrir í fjölskyldu mannsins segjast ekkert vita um það hvar fólkið sé niðurkomið eða neitar að tjá sig um það.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert