Fidel Castro, fyrrverandi leiðtogi Kúbu, hefur hafnað aðstoð Bandaríkjastjórnar vegna tveggja fellibylja sem ollu miklu tjóni í landinu. Castro segir í ritgerð, sem fjölmiðlar á Kúbu birtu í dag, að stjórn Kúbu lúti ekki svo lágt að þiggja aðstoð Bandaríkjastjórnar sem bauð Kúbumönnum fimm milljónir dala, sem svarar 460 milljónum króna. Castro lýsir tilboðinu sem hræsni því bandarísk stjórnvöld hafi valdið Kúbumönnum miklu meira tjóni með refsiaðgerðum í tæpa hálfa öld en fellibyljirnir tveir, Gústav og Ike.
Tjónið af völdum Gústavs og Ike á Kúbu nam alls sem svarar 450 milljörðum króna og er það mesta efnahagslega tjón sem orðið hefur vegna fellibylja í sögu landsins.
Nær 450.000 íbúðir skemmdust í óveðrinu og ekki verður hægt að gera við 63.000 þeirra. Að minnsta kosti 200.000 manns misstu heimili sín.