Tölvuþrjótar brutust inn í tölvupósthólf sem Sarah Palin varaforsetaefni Repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum hefur hjá Yahoo. Palin notar Yahoo-netfangið sitt fyrir opinber tölvupóstasamskipti sín sem ríkisstjóri í Alaska.
AP fréttastofan segist hafa fengið nokkur tölvuskeyti úr þessu „innbroti" en þau séu einungis heillaóskaskeyti sem hún fékk í kjölfar tilnefningarinnar sem varaforsetaframbjóðandi með John McCain.
Ekki er ljóst hvernig tölvuþrjótarnir komust yfir póstinn en málið er í rannsókn hjá öryggis og leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Palin hefur áður verið gagnrýnd fyrir að nota ekki opinbert netfang embættis ríkisstjórans fyrir tölvupóst sem tengist embættinu.