Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur vísað frá lögsókn gegn metsöluhöfundinum John Grisham og tveimur öðrum höfundum vegna bóka sem þeir skrifuðu um ranga dómsniðurstöðu í máli tveggja manna í morðmáli árið 1982, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar.
Stefnan var lögð fram á síðasta ári af fyrrum lögmanni Pontotoc County og tveimur fyrrum rannsakendum Oklahomaríkis, en þremenningarnir fengu fram upphaflegu dómsniðurstöðuna í morðmáli Debbie Sue Carter barþjóns.
Stefnendur héldu því fram að hinir ákærðu hefðu sammælst um meiðyrði og að vekja á sér athygli með því láta þá, stefnendur, líta illa út og af ásettu ráði valda þeim ærumeiðandi óþægindum. Dómarinn hins vegar hafnaði kröfu stefnenda.
Mennirnir tveir sem upphaflega voru dæmdir fyrir morðið, Ron Williamson og Dennis Fritz, voru síðar hreinsaðir af áburðinum með DNA-rannsókn og sleppt eftir 12 ára fangelsisvist. Aðalvitni ákæruvaldsins, Glen Gore, var seinna tengdur morðinu í DNA-rannsókn og dæmdur í lífstíðarfangelsi.
Í dómsúrskurði sínum skrifaði dómarinn að mikilvægt væri að geta greint og gagnrýnt dómskerfið, svo mistök fortíðar endurtækju sig ekki í framtíðinni. „Rangan dóm yfir Ron Williamson og Dennis Fritz verður að ræða opinskátt og undanbragðalaust.“
Stefnunni var beint gegn Grisham sem nefndi frásögn sína af málinu The Innocent Man, útgefanda hans og höfundum og útgáfufyrirtækjum tveggja annarra bóka um málið. Einnig var stefnt í málinu Barry Scheck, stofnanda baráttusamtaka, Innocence Project, og verjanda annars mannanna sem hlutu hinn ranga dóm. „Þetta er sigur fyrir málfrelsið og þess grundvallaratriði að opinberir embættismenn séu látnir sæta ábyrgð vegna gerða sinna fyrir ranga dómsniðurstöðu,“ er haft eftir honum.