Hersveitir undir forystu Bandaríkjamanna handtóku tuttugu og fimm manns í aðgerðum gegn al-Qaida í Írak um helgina. Sjálfsmorðsárásir urðu fimm manns að bana og særðu fjölda annarra í Norður-Írak og þykir það merki þess að þótt dregið hafi úr krafti öfgamanna í landinu geti þeir enn framkvæmt mannskæðar árásir.
Talsmenn Bandaríkjahers sögðu að meðal hinna handteknu væri fólk sem tekið hefði þátt í bílsprengjuárásum og fjármögnun, sem og að hafa flutt sjálfsmorðsvígamenn milli Íran og Írak. Flestir hinna handteknu eru í Bagdad, Mosul og Kirkuk.
Herinn heldur því að al-Qaida í Írak sem eru öfga Súnnímenn fái fjármagn og vopn frá aðilum á Sjítasvæðum í Íran, þrátt fyrir að öfga Súnníar líti á Sjíta sem brotthlaupna múslíma.
Bandarískir embættismenn hafa sakað Teheran um að styðja við Sjíta í Írak, sem lið í valdabaráttu sinni við Bandaríkin um umráð í Mið-Austurlöndum. Aðgerðir vígamanna hafa þó minnkað verulega.
Ein sjálfsmorðsárásin um helgina átti sér stað í Kirkuk þar sem miklar deilur hafa staðið milli mismunandi þjóðfélagshópa. Þar lést lögreglumaður ásamt tveimur öðrum í árás á eftirlitsstöð lögreglunnar. Fimmtán lögreglumenn voru meðal hinna tuttugu og þriggja slösuðu.
Önnur árás var á lögreglustöð í Mosul. Þar lést einn lögreglumaður og einn óbreyttur borgari. Fjörutíu slösuðust, þar á meðal lögreglumenn.