Fylgismenn Barack Obama hafa gert John McCain að athlægi vegna bifreiðaeignar hans. McCain á þrettán bíla sem flestir eru framleiddir í öðrum löndum en Bandaríkjunum. Frá þessu er greint í norska dagblaðinu Aftenposten í dag.
Segja fylgismenn Obama þennan stóra bílafloti McCain til marks um sambandsleysi hann við hinn venjulega bandaríska borgara, auk þess sem hann svíki bandarískan bíliðnað með því að velja útlenskt.
Stéttarfélag ameríska bílframleiðenda (United Auto Workers) saka McCain um að segja aðeins hálfan sannleikann þegar hann segist kaupa bíla framleidda í Bandaríkjunum.
„Þegar hann er í miðfylkjunum segist hann styðja bílaframleiðslu landsins. Það hljómar vel í kosningabaráttunni. Hins vegar kemur nú í ljós að hann er ekki heiðarlegur gagnvart íbúum Detroit,“ segir Ron Getterlfinger, formaður UAW. „Við þurfum á forseta að halda sem hyggst styðja við og byggja upp bandaríska bíliðnaðinn, en ekki forseta sem kaupir útlenska bíla.“
Í samantekt sem Newsweek nýverið gerði kemur fram meðal þeirra bíla sem McCain á eru Volkswagen og Honda, en Cindy kona hans ekur um í stórum Lexus. Í sömu samantekt kemur fram að Barack Obama og Michelle kona hans eiga aðeins einn bíl, en það er Ford Escape blendingsbíll.