Samtök, sem kalla sig Stríðsmenn íslams, segjast bera ábyrgð á sprengjuárás á Marriott hótelið í Islamabad, höfuðborg Pakistans. Fulltrúi samtakanna hafði samband við Al-Arabiya sjónvarpsstöðina í Dubai og lýsti þessu yfir.
Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar í Islamabad sagðist hafa fengið SMS boð í síma sinn með símanúmeri. Hann hringdi í númerið og þá var leikin fyrir hann segulbandsupptaka þar sem samtökin segjast hafa komið sprengjunni fyrir.
Fréttamaðurinn sagði, að yfirlýsingin hefði verið lesin á ensku og sá sem talaði var með suðurasískan hreim.
Vörubíl með hálfu tonni af sprengiefni var ekið að hótelinu og sprengjan síðan sprengd. Að minnsta kosti 60 manns létu lífið og yfir 260 særðust.