Ómetanleg dagblöð fuðra upp

Forsvarsmenn Óslóarháskóla hafa fyrirskipað að brenna skuli mikið safn norrænna og erlendra dagblaða frá 19. öld til þess að rýma til fyrir antikhúsgögnum. Frá þessu er greint í norska dagblaðinu Aftenposten.

Um er að ræða safn dagblaða sem tekur um 3.000 metra hillurými og geymt er á  Follum Gård á Ringerike. Þegar er búið að bjarga dagblaðasafninu einu sinni, því árið 2002 stóð einnig til að farga því, en þá komu  eldhugar hjá Þjóðarbókasafninu norska og Óslóarháskóla því til leiðar að safninu var komið fyrir á Follum Gård. 

„Þarna er verið að vinna óbætanlegt skemmdarverk á menningararfinum,“  segir Edgar Ytteborg, en hann kom að björgun safnsins árið 2002 á vegum Þjóðarbókasafnsins og hafði umsjón með dagblaðasafninu hjá Óslóarháskóla þar til hann fór á eftirlaun. Segir hann safnið ekki eiga sinn líkan á Noregi. 

Ekki virðist á hreinu hvort dagblöðin séu öll til skráð á míkrófilmum eða til í fleiri eintökum erlendis. Að sögn Ytteborg er skráning á míkrófilmu heldur ekki nóg til þess að tryggja heimildagildi dagblaðanna, því fræðimaður sem vinni með dagblöðin sem heimild verði að geta skoðað frumheimildir, þ.e. dagblöðin sjálf, en ekki bara ljósmyndir af heimildunum. 

„Dagblöðin hafa legið á Follum árum saman og enginn hefur sýnt þeim neinn einasta áhuga,“ segir Frode Meinich, forstjóri tæknideildar Óslóarháskóla og tekur fram að í raun hefði löngu átt að vera búið að brenna blöðin. Tekur hann fram að sé einhver reiðubúinn að taka við safninu þá sé viðkomandi það guð velkomið. „Hafi einhver áhuga þá hættum við auðvitað að brenna blöðin og sjáum til þess að þau verði send viðkomandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka