John McCain, forsetaframbjóðandi repúblíkana, segir að George W. Bush forseti hafi brugðist, og látið viðgangast að þær aðstæður sköpuðust sem leiddu til fjármálakreppu og hrunsins á Wall Street.
En keppinautur McCains, Barack Obama, henti kröfur hans um umbætur í fjármálakerfinu á lofti og sagði að McCain hafi verið einn helsti talsmaður þess að slakað yrði á reglum í bankageiranum, sem nú þyrfti að koma til bjargar.
Í viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 mínútur sagði McCain: „Ég held að stjórn Bush hafi brugðist. Ég held að þingið hafi brugðist, bæði repúblíkanar og demókratar. Þannig að það hafa allir brugðist. Og vinabandalögin og sérhagsmunatengslin sem hafa ráðið ríkjum í Washington hafa komið niður á bandarísku þjóðinni með skelfilegum hætti.“
McCain sagðist bálreiður út í „gráðuga liðið á Wall Street.“ Kvaðst hann ennfremur myndu reka núverandi yfirmann fjármálaeftirlitsins (SEC) og ráða í staðinn demókratann Andrew Cuomo, sem var í ríkisstjórn Bills Clintons.
McCain hafnaði ennfremur fullyrðingum Obamas, sem hefur sagt hann hafa sömu stefnu og Bush. Kvaðst McCain hafa aðra stefnu en Bush varðandi ríkisútgjöld, Íraksstríðið, viðbrögð við loftslagsbreytingum og meðferð fanga í hryðjuverkastríðinu.